Mikael Kaaber
Mikael er reyndur leikari og handritshöfundur. Mikael byrjaði ungur að þreifa fyrir sér í leiklistinni. Aðeins 5 ára gamall lék hann 50 sýningar af Sitji guðs englum fyrir framan fullan Þjóðleikhússal. Hann iðkaði leiklist af miklum krafti næstu árin hjá Sönglist þar sem hann tók þátt í tugum leikrita.
Mikael stundaði nám við Verzlunarskóla íslands og tók þátt í öllum þeim söngleikjum og leiksýningum sem hægt var að sækja. Hann hlaut sérstaklega mikið lof fyrir hlutverk sitt sem Brjánn í The Breakfast Club og vann til verðlauna 2017 á Grímunni fyrir menntaskóla fyrir “Besta leik í aðalhlutverki” og “Björtustu vonina.” Eftir útskrift skrifaði hann og lék ásamt öðrum frábærum ungmennum í leikritinu Fyrsta skiptið sem hlaut mikið lof og var m.a. valin ein af bestu sýningum ársins hjá Morgunblaðinu. Sýningin var svo keypt af Sjónvarpi Símans. Einnig ferðaðist breskur leikhópur með hana um Evrópu.
Hann hefur ekki einungis komið fram á sviði, heldur einnig á hvíta tjaldinu. Kvikmynda- og sjónvarpshlutverk sem Mikael hefur tekið að sér eru t.d. Máni í Mannasiðir (Manners) eftir Maríu Reyndal, Benni í Iceland is best eftir Max Newsom og Málmhaus (Metalhead) eftir Ragnar Bragason ásamt því að leika nokkur hlutverk í sketsaseríunni Meikar ekki sens og komið fram í Áramótaskaupinu 2017 og 2019. Nú síðast lék hann Arnar í þáttaröðinni Vitjanir (Fractures) sem voru sýndir á RÚV 2022.
Mikael hefur síðustu tvö ár séð um Krakkaskaupið fyrir RÚV ásamt Berglindi Öldu. Saman hafa þau einnig verið kynnar Skrekks tvisvar, tekið þátt í skrifum og leik fyrir sketsaþættina VANDRÓ og komið fram sem kynnar við allskyns tilefni.